Innlent

Hraunið ekkert nálgast Þórsmörk í tvær vikur

Hraunið frá eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi hefur ekkert nálgast sléttlendið í Þórsmörk undanfarnar tvær vikur. Þess í stað hleðst það upp innst í Hvannárgili.

Hraunrennslið úr gígunum er að meðaltali fimmtán rúmmetrar á hverri sekúndu, að mati jarðvísindamanna Háskóla Íslands, eða sem samsvarar þrjátíu til fjörutíu tonnum á sekúndu. Fyrstu gosdagana streymdi hraunið hratt niður Hrunagil og Hvannárgil og stefndi í að það næði niður á Krossáraura á innan við viku. Menn sáu fyrir sér að hraunrennsli gæti stíflað Krossá við Valahnjúk og lón jafnvel myndast á móts við Langadal og landslag þannig breytast í Þórsmörk.

Með myndum sem flugvél Landhelgisgæslunnar tók í fyrradag hefur nú fengist gleggri mynd af hraunrennslinu inni í giljunum, sem við sýnum nú með tölvugrafík en rauði liturinn táknar nýjasta hraunið sem runnið hefur síðastliðna viku en guli liturinn er hraunið sem rann fyrstu tíu dagana. Að sögn Eyjólfs Magnússonar hjá Jarðfræðistofnun Háskólans hefur hraunið nánast ekkert komist nær Þórsmörk síðustu tvær vikur. Mikið hraun rennur þó niður í Hvannárgil en þar innst virðist það staflast upp. Aðstæður þar virðast vera þannig að gilið geti lengi tekið við nýju hrauni. Í Hrunagil rennur ekkert hraun lengur eftir að gos hætti í fyrsta gígnum.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir ljóst að hraunið eigi mikið verk fyrir höndum eigi það að komast niður á sléttlendið við Krossá.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×