Fótbolti

Frakkland og Noregur tryggðu sér sæti á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Noregs og Úkraínu í gær.
Úr leik Noregs og Úkraínu í gær. Nordic Photos / AFP

Frakkland og Noregur tryggðu sér í gær þátttökurétt á HM kvenna í knattspyrnu sem fer fram í Þýskalandi á næsta ári.

Alls voru átta riðlar í undankeppninni í Evrópu og sigurvegarar þeirra riðla eigast nú við í umspili um fjögur laus sæti á HM næsta sumar. Frakkland bar sigur úr býtum í 1. riðli en Ísland lék einnig í þeim riðli.

Frakkar höfðu betur, 3-2, gegn Ítalíu á útivelli í gær eftir að fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli í Frakklandi.

Noregur vann í gær Úkraínu 2-0 á heimavelli og 3-0 samanlagt.

Í dag ræðst það hvaða tvö lið fylgja hinum tveimur til Þýskalands. Sviss og England eigast við annars vegar en fyrri leik liðanna lauk með 2-0 sigri Englands á heimavelli.

Þá eigast við Danmörk og Svíþjóð en síðarnefnda liðið vann 2-1 sigur á heimavelli í fyrri leiknum.

Alls keppa sextán lið um heimsmeistaratitilinn á næsta ári. Undankeppninni í Asíu lauk nú í vor og þá tryggðu Ástralar, Japanir og Suður-Kóreumenn sér þátttökurétt í úrslitakeppninni.

Öðrum undankeppnum lýkur nú á haustmánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×