Enski boltinn

Jafntefli í fyrsta byrjunarliðsleik Hemma - Heiðar skoraði fyrir QPR

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson.

Harðjaxlinn Hermann Hreiðarsson lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik í ensku 1. deildinni þetta tímabilið þegar Portsmouth gerði jafntefli 1-1 gegn Millwall í dag.

Liam Trotter skoraði eina mark Millwall á 26. mínútu. Hermann sleit hásin í byrjun árs og lék fyrsta byrjunarliðsleikinn síðan þá. Hann fékk gult spjald fyrir brot þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.

Hermann var tekinn af velli á 66. mínútu en á 73. mínútu jafnaði David Nugent fyrir heimamenn og úrslitin 1-1.

Heiðar Helguson var í byrjunarliði QPR sem styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar með 4-0 sigri á Swansea. Jamie Mackie skoraði fyrsta markið eftir fimmtán mínútna leik.

Leikmenn liðanna voru ekki í jólaskapi og á 19. mínútu brutust út slagsmál sem enduðu með því að bæði lið misstu mann af velli með rautt spjald en þeir Alan Tate og Clint Hill voru sendir í bað.

Heiðar bætti svo við öðru marki fyrir QPR úr vítaspyrnu á 62. mínútu áður en Adal Taarabt bætti við tveimur mörkum og innsiglaði sigurinn en Heiðar lagði upp fyrra mark hans.

QPR er nú með sex stiga forskot á Leeds í efsta sæti deildarinnar en Portsmouth er í 14. sæti af 24 liðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×