Enski boltinn

Anderson bjargað úr brennandi bíl

Elvar Geir Magnússon skrifar
Anderson eyddi aðfaranótt sunnudagsins á næturklúbbi í Portúgal.
Anderson eyddi aðfaranótt sunnudagsins á næturklúbbi í Portúgal.

Brasilíski miðjumaðurinn Anderson hjá Manchester United var dreginn meðvitundarlaus úr brennandi bifreið eftir árekstur á sunnudagsmorgun. Atvikið átti sér stað í Braga í Portúgal og eyddi Anderson nokkrum klukkustundum á sjúkrahúsi.

Þó bíllinn hafi aðeins verið tveggja sæta voru alls þrjár manneskjur í bílnum, auk Anderson var það vinur hans og svo brasilísk kona. Þau höfðu eytt nóttinni á næturklúbbi. Ekki er búið að upplýsa hver var ökumaður bílsins en grunur leikur á ölvunarakstri.

Lögreglan í Portúgal rannsakar málið en meiðslin sem fólkið hlaut í slysinu voru aðeins minniháttar. Þau voru stálheppin að ekki fór verr.

Anderson er að jafna sig eftir erfið meiðsli sem hafa haldið honum frá knattspyrnuvellinum, þessi 22 ára leikmaður var keyptur til Manchester United fyrir þremur árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×