Enski boltinn

Man. Utd lagði Arsenal og er komið á toppinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Park fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Nordic Photos/AFP
Park fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Nordic Photos/AFP

Man. Utd er komið aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir sanngjarnan 1-0 sigur á Arsenal á Old Trafford. Það var Kóreubúinn Ji-Sung Park sem skoraði eina mark leiksins.

Fyrri hálfleikur var frekar tilþrifalítill. Man. Utd réð ferðinni á meðan Arsenal lá frekar aftarlega. Þeir voru þó fastir fyrir og brutu ítrekað á leikmönnum United.

United fékk þau fáu færi sem komu í hálfleiknum. United vildi reyndar fá víti eftir um hálftímaleik er boltinn fór í hönd Chamakh en Howard Webb dómari dæmdi ekki neitt.

Er fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik átti Nani skot að marki sem fór í Clichy og þaðan í teiginn. Þar var Ji-Sung Park vel staðsettur. Hann gerði svo afar vel í því að ná skalla að marki sem sveif yfir hinn tvítuga Szczesny sem stóð í marki Arsenal. Glæsilegt mark og ekki við hinn unga markvörð að sakast.





Park og Evra fagna i kvöld.

Arsenal ógnaði nákvæmlega ekki neitt í fyrri hálfleik og varð því að breyta sínum leikstíl fyrir síðari hálfleikinn.

Það var mun meira líf í liði Arsenal í seinni hálfleik og eftir um tíu mínútna leik í síðari hálfleik opnaðist leikurinn nokkuð mikið. Bæði lið fengu færi sem þeim tókst ekki að nýta.

Á 72. mínútu var dæmd vítaspyrna á Arsenal er Gael Clichy fékk boltann í hendina er hann lá í teignum. Nokkuð umdeildur dómur en líklega átti United vítið inni eftir að ekkert var dæmt á Chamakh í fyrri hálfleik.

Wayne Rooney fékk þá ábyrgð að taka vítið. Það gekk upp síðast en að þessu sinni brást Rooney bogalistin því hann skaut boltanum hátt yfir markið og líklega lengst út á bílastæði.

Það kom þó ekki að sök því Arsenal náði ekki að jafna leikinn og United fagnaði því sigrinum og toppsætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×