Enski boltinn

Sir Alex skoðar markverði og arftaka Giggs

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hinn 23 ára Hugo Lloris er enn og aftur orðaður við Manchester United.
Hinn 23 ára Hugo Lloris er enn og aftur orðaður við Manchester United.

Sir Alex Ferguson ætlar sér að kaupa markvörð fyrir næsta tímabil en Edwin van der Sar er að fara leggja hanskana á hilluna. United hefur þegar tryggt sér danska markvörðinn Anders Lindegaard en ætlar að fá annan til að berjast um stöðuna við hann.

Hugo Lloris, markvörður Lyon í Frakklandi, hefur síðustu ár verið orðaður ótt og títt við enska stórliðið og verður sá orðrómur sífellt þrálátari að hann sé á leið á Old Trafford. Ferguson þarf þó að opna veskið til að krækja í Lloris sem metinn er á 20 milljónir punda.

Sumir enskir fjölmiðlar hafa einnig nefnt Pepe Reina til sögunnar sem hugsanlegan arftaka Van der Sar en ljóst er að það er langsóttara að reyna að fá leikmann frá Liverpool. Einnig hefur nafn David de Gea, hins tvítuga markvarðar Atletico Madrid, verið nefnt.

Manchester United er ekki bara orðað við markverði í enskum fjölmiðlum. Eden Hazard, vængmaður Lille, er talinn vera á óskalista Ferguson en fleiri stórlið í Evrópu hafa sýnt honum áhuga. Ferguson horfir til Hazard í leit sinni að leikmanni í stað Ryan Giggs sem orðinn er 37 ára.

Þá hefur Ferguson gefið það út að Michael Owen sé ekki á förum í janúarglugganum en Owen hefur verið orðaður við Aston Villa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×