Enski boltinn

Vermaelen frá í mánuð til viðbótar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thomas Vermaelen, Cesc Fabregas og Carlos Vela.
Thomas Vermaelen, Cesc Fabregas og Carlos Vela. Nordic Photos / Getty Images
Belginn Thomas Vermaelen verður frá í mánuð til viðbótar þar sem hann er enn að glíma við meiðsli í hásin.

Hann meiddist í landsleik gegn Tyrklandi þann 7. september síðastliðinn og segir Arsene Wenger, stjóri Arsenal, að endurhæfingin hafi lofað góðu.

„Hann er ekki í nógu góðu formi og þarf að byggja það upp á ný. Það tekur um þrjár til fjórar vikur og á ég frekar von á því að hann geti byrjað aftur að spila í lok janúar," sagði Wenger við enska fjölmiðla. „Endurhæfingin hefur þó lofað góðu."

Wenger bætti því við að hann ætli sér ekki að taka neinar áhættur með meiðsli Vermaelen. „Ég hef þurft að glíma við svo mörg bakslög að ég er afar varkár."

Það eru þó góðar fréttir af meiðslamálum Arsenal. Kieran Gibbs ætti að verða klár í slaginn í byrjun janúar en hann hefur verið frá í tvær vikur vegna ökklameiðsla. Þá er Abou Diaby aftur leikfær eftir að hafa verið frá í tvo mánuði, einnig vegna ökklameiðsla.

Wenger sagði að Diaby hafi verið í leikmannahópi Arsenal gegn Stoke um helgina en leiknum var frestað. Hið sama má segja um þá Cesc Fabregas og Robin van Persie en báðir hafa verið meiddir.

Arsenal mætir Chelsea á mánudaginn og segir að aukavika hafi aðeins gert þeim gott. „Þeir hafa fengið viku til viðbótar til að jafna sig og það hjálpaði þeim."

Manuel Almunia markvörður er einnig meiddur en hann ætti að geta spilað aftur í janúar, rétt eins og þeir Gibbs og Vermaelen. „Allir aðrir eru heilir," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×