Fótbolti

Mörg félög hafa áhuga á Podolski

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lukas Podolski í leik með þýska landsliðinu.
Lukas Podolski í leik með þýska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images

Umboðsmaður Lukas Podolski segir að það séu mörg félög sem hafi áhuga á að fá þýska landsliðsmanninn í sínar raðir.

Podolski hefur slegið í gegn á HM í Suður-Afríku en hann er nú á mála hjá Köln í heimalandinu þar sem hann hefur reyndar átt nokkuð erfitt uppdráttar.

Hann var áður á mála hjá Bayern München en fékk ekki að spila jafn mikið og hann vildi þar.

„Það hafa komið fyrirspurnir vegna hans frá félögum í Englandi, Ítalíu og Spáni," sagði umboðsmaðurinn Kon Schramm í samtali við þýska fjölmiðla. Hann hefur helst verið orðaður við Manchester City í Englandi.

„Lukas er nú að einbeita sér að HM og er þess fyrir utan samningsbundin Köln til 2013. Hann sagði fyrir mótið að hann væri ánægður þar og yrði áfram hjá félaginu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×