Enski boltinn

Markaþurrð Rooney veldur Sir Alex engum áhyggjum

Elvar Geir Magnússon skrifar

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segist ekki hafa miklar áhyggjur þó Wayne Rooney gangi illa að finna leiðina að netinu. Rooney hefur ekki skorað fyrir United úr opnum leik síðan í mars og hann komst ekki á blað í dag þegar United vann 2-0 sigur á Sunderland.

Hægt er að sjá svipmyndir úr leiknum í meðfylgjandi myndbandi.

„Wayne átti nokkrar góðar tilraunir í dag," sagði Sir Alex eftir leik. „Hann var mjög óheppinn að ná ekki að skora. Þetta er allt að koma en mikilvægast er að hann er að spila vel. Það skiptir okkur miklu máli."

Það er Dimitar Berbatov sem er að stela fyrirsögnunum en hann skoraði bæði mörkin í dag og er markahæstur í deildinni með þrettán mörk. United er á toppi deildarinnar og hefur ekki tapað í síðustu sautján leikjum.

„Dimitar hefði getað skorað fjögur eða fimm mörk í dag. Hann fékk nokkur frábær færi. Það olli mér vonbrigðum að við náðum bara að skora eitt mark í fyrri hálfleiknum eftir að hafa átt skot í stöng og slá. Markvörðurinn þeirra varði í nokkur skipti mjög vel en við spiluðum mjög góðan fótbolta," sagði Sir Alex.

Mike Phelan, aðstoðarstjóri Ferguson, hrósaði Anderson sérstaklega eftir leik en miðjumaðurinn brasilíski hefur verið að leika virkilega vel að undanförnu. „Hann átti margar frábærar sendingar og var sískapandi í sóknarleiknum. Hann komst nálægt því að skora þar að auki," sagði Phelan.

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Sunderland, viðurkennir að sínir menn hafi verið yfirspilaðir. „Kannski spiluðum við full neikvæðan fótbolta í dag. United spilaði frábærlega í fyrri hálfleik á meðan við vorum að elta skuggann af okkur," sagði Bruce eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×