Enski boltinn

Hughes skilur gremju þeirra sem heimta hann burt

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Þú veist ekkert hvað þú ert að gera," og „Út með Hughes," var meðal þess sem stuðningsmenn Fulham hrópuðu að knattspyrnustjóranum Mark Hughes í dag. Þeir þurftu að horfa upp á sína menn tapa niður 1-0 forystu gegn botnlið West Ham en Hamrarnir unnu á endanum 3-1 sigur.

Mark Hughes segist skilja óánægju stuðningsmanna. Þetta var áttundi leikur liðsins í röð án sigurs. Fulham er nú komið niður í fallsæti jafnt West Ham að stigum.

Aðeins er um hálft ár síðan Hughes tók við stjórnartaumunum hjá Fulham af Roy Hodgson sem hélt til Liverpool. „Þegar þú tapar leik á fólk rétt á að sýna tilfinningar sínar. Sérstaklega þegar um er að ræða heimaleik. Þegar fólk tekur sér tíma og sest niður áttar það sig á því að það þarf að sýna þolinmæði," segir Hughes.

Hann telur að liðið þurfi á sóknarmanni að halda til að klára færin. „Við erum með Andy Johnson en hann hefur verið lengi frá og er ekki í sínu besta form," segir Hughes en Johnson fór illa með nokkur góð færi í leiknum í dag.

Carlton Cole og Frederic Piquionne skoruðu mörk West Ham í dag. „Þessir tveir kraftmiklu sóknarmenn eiga hrós skilið. Þeir eru stórir og sterkir og við vorum sífellt í vandræðum með þá," segir Hughes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×