Innlent

Nýtt Ísland: Bloggari á stefnuskrá var grín

Mótmæli við Íslandsbanka. Mynd úr safni.
Mótmæli við Íslandsbanka. Mynd úr safni.

„Þetta var sett inn í gríni og það gleymdist að taka þetta aftur út. Þetta var bara grín," segir Sveinbjörn Ragnar Árnason, framkvæmdarstjóri samtakanna Nýs Íslands þegar hann er spurður að því hvernig bloggarinn Teitur Atlason rataði inn í stefnumál samtakanna undir liðnum efnahagur.

En þar mátti finna stefnumálið: „Jákvætt verði tekið í að veita Teiti Atlasyni frekari námsstyrk við nám í Gautaborg."

Samtökin hafa núna fjarlægt þetta grín af heimasíðu sinni að sögn Sveinbjörns.

Teitur hefur gagnrýnt samtökin harðlega á bloggi sínu og má gera ráð fyrir því að þess vegna hafi nafn hans ratað inn í stefnumál samtakanna. Teitur er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt samtökin heldur hefur stjórn VR gert slíkt hið sama. Þeir sökuðu félagið í ályktun meirihluta stjórnarinnar í lok janúar um að vera fasísk öfl og líktu þeim við brúnstakka.

Sveinbjörn segist ekki svara ásökunum sem þessum, fólk verði einfaldlega að skoða stefnumál þeirra sjálft og taka upplýsta ákvörðun um samtökin. Meðal þess sem samtökin berjast fyrir er aukin löggæsla, nokkurskonar leyniþjónustu og að öll sendiráð Íslands á erlendri grundu verði lögð niður. Þá vilja samtökin einnig skikka atvinnulausa til þess að vinna hjá ríkinu ef viðkomandi hefur verið á atvinnuleysisskrá í þrjá mánuði.

Á sama tíma vilja samtökin segja öllum forstjórum og millistjórnendum hjá ríkinu upp og þeir verði ráðnir til baka eftir þörfum.

Það þekkja það allir sem hafa verið atvinnulausir að það er erfitt," segir Sveinbjörn en aðspurður hvort það sé hægt að skikka fólk, sem til að mynda er of menntað fyrir þau störf sem bjóðast eða hafa almennt engan áhuga á þeim, til þess að sinna störfunum, svarar Sveinbjörn: „Það er hægt að gera margt. Til dæmis er hægt að fá 200 atvinnulausa einstaklinga til þess að fara yfir ESB samninginn í stað þeirra sem gera það núna."

Spurður hvort það sé ekki Íslandi í hag að fá færustu sérfræðinga landsins til þess að skoða það mál svarar Sveinbjörn: „Ef menn skoða hvernig er komið fyrir landinu þá er ég ekki viss um það hvort færasta fólkið hafi verið við stjórn."

Sveinbjörn segir Íslendinga agalausa og því þurfi að ráða bót á. Hann segist til að mynda hafa rætt við lögreglumann sem fullyrti við hann að virðing fyrir lögreglunni væri lítil sem enginn. Enda er eitt af stefnumálum samtakanna að almenn ókurteisi og dólgslæti við lögreglunna eigi ekki að líða.

Að lokum spyr blaðamaður Sveinbjörn hvort Teitur sé óvelkominn í samtökin.

„Við bjóðum Teit velkominn í hópinn en hann verður að haga sér vel," segir Sveinbjörn og bætir við að það þurfi ekki að lesa bloggið hans lengi til þess að fá þá tilfinningu að Teitur sé mjög reiður maður.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér stefnumál Nýs Íslands þá má nálgast þau hér.


Tengdar fréttir

„Þyrftu að breyta nafninu í fávitafélagið Nýtt Ísland“

„Mín fyrstu viðbrögð þegar ég sá þetta voru þau að samtökin þyrftu að breyta nafninu í fávitafélagið Nýtt Ísland,“ segir Teitur Atlason, nemi í Alþjóðaviðskiptum í Gautaborg en nafn hans og staða hefur á sérkennilegan hátt slæðst inn í stefnumál samtakanna Nýtt Ísland.

Nýtt Ísland tilbúið að veita bloggara frekari námsstyrki

Samtökin Nýtt Ísland, sem hafa staðið fyrir bílamótmælum fyrir utan lánastofnanir undanfarna mánuði til þess að mótmæla breyttum myntkörfulánum, hafa athyglisverð mál á sinni stefnuskrá. Þá vekur mesta athygli stefnumálið þeirra er varðar bloggarann Teit Atlason sem skrifar á heimasíðu DV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×