Enski boltinn

Wenger: Við áttum leikinn en fórum samt heim með núll stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/AP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, fann til með sínum mönnum eftir tapið á móti Chelsea í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í gær. Chelsea vann leikinn 2-0, er með fjögurra stiga forskot í toppsætinu og sjö stigum meira en Arsenal.

„Við verðum að vera kaldari fyrir framan markið ef við ætlum að vinna titilinn. Við megum ekki tapa leikjum á þennan hátt," sagði Arsene Wenger eftir leikinn. Arsenal var betra liðið stóra hluta leiksins en það var Didier Drogba sem kom Chelsea í 1-0 á 40. mínútu.

„Framherjarnir þeirra höfðu þennan kulda fyrir framan markið og það gerði útslagið. Við fengum færin en þurftum að skora. Ég finn til með mínu liði því þeir mættu til leiks með frábært hugarfar," sagði Wenger.

Arsenal byrjaði vel ef hefur síðan aðeins náð í 1 stig af síðustu níu mögulegum og er því farið að dragast aðeins aftur úr í toppbaráttunni.

„Það var leiðinlegt að fá engin verðlaun fyrir góða spilamennsku en þegar þú nýtir ekki færin þá vinnur þú ekki stóra leiki. Við áttum leikinn en við förum heim með núll stig. Leikmennirnir mínir sýndu samt nógu góðan leik til þess að fá öll þrjú stigin með sér heim," sagði Arsene Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×