Enski boltinn

Ancelotti: Erum í bílstjórasætinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, var að vonum sáttur við sigur sinna manna á Old Trafford í dag enda er Chelsea komið aftur á toppinn í ensku úrvalsdeildinni.

„Það var mikill kraftur í okkur í fyrri hálfleik og við stýrðum leiknum vel. Við náðum að æfa vel í vikunni þar sem við erum ekki í Meistaradeildinni. Leikmenn tapa mikilli orku á að spila þar í miðri viku," sagði Ítalinn.

„Þetta er afar mikilvægur sigur fyrir okkur. Það er ekki auðvelt að vinna hér og við stóðum okkur mjög vel."

Athygli vakti að Ancelotti byrjaði með Didier Drogba á bekknum í leiknum.

„Það var mjög erfið ákvörðun að setja Didier á bekkinn en hann hafði skilning fyrir ákvörðuninni þar sem hann gat ekki æft af fullum krafti í vikunni. Hann stóð sig vel, kom ferskur inn og skoraði frábært mark.

Við erum núna í bílstjórasætinu og líklegastir til að vinna deildina. Það segir sig sjálft því við erum á toppnum. Það eru samt fimm leikir eftir og við verðum að halda einbeitingu. Það er ekkert í hendi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×