Enski boltinn

Sky Sports: Alan Pardew tekur við Newcastle í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Pardew.
Alan Pardew. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alan Pardew mun í dag verða kynntur sem nýr stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle United samkvæmt heimildum Sky Sports. Hann mun taka við af Chris Hughton sem var óvænt rekinn úr starfi á mánudaginn.

Alan Pardew hefur verið orðaður við starfið alla þessa viku en það hafa einnig verið önnur nöfn upp á borðinu. Mike Ashley, eigandi Newcastle, er hinsvegar á því að hinn 49 ára gamli Pardew sé besti kosturinn í stöðunni.

Alan Pardew var látinn fara sem stjóri Southampton snemma á þessu tímabili en hann hefur stýrt bæði liðum West Ham United og Charlton Athletic í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa byrjað stjóraferillinn hjá Reading.

Stuðningsmenn Newcastle hafa ekkert tekið alltof vel þeim fréttum að Alan Pardew væri að setjast í stjórastól félagsins því hann nýtur aðeins fimm prósenta stuðnings í könnun á skysports.com. Flestir vildu fá Martin O'Neill og þeir Martin Jol og Alan Shearer fengu báðir mun fleiri atkvæði en Pardew.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×