Fótbolti

Ólafur: Ósáttur en hlíti ákvörðuninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson á blaðamannafundi KSÍ í dag.
Ólafur Jóhannesson á blaðamannafundi KSÍ í dag. Mynd/Anton
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari sagðist á blaðamannafundi KSÍ í dag hlíta umdeildri ákvörðun stjórnar sambandsins sem tilkynnt var í síðustu viku.

Stjórn KSÍ ákvað að leyfa U-21 landsliðinu að hafa forgang á leikmenn fyrir leiki sína gegn Skotum sem eru framundan en um svipað leyti mætir A-landslið Íslands Portúgal í undankeppni EM 2012.

„Ég var mjög ósáttur við þetta en ég hlýti ákvörðuninni," sagði Ólafur. „Ég er enn við störf og ég tel allar líkur á því að ég haldi áfram - það er víst frá minni hendi."

Ólafur tilkynnti gjörbreyttan landsliðshóp í dag fyrir leikinn gegn Portúgal í næstu viku.

„Mér voru settar skorður í leikmannavali sem var ekki gott. En liðið sem ég er nú með er mjög gott og ég treysti því fullkomnlega fyrir þessu verkefni."

„Það sem skiptir mestu máli er að við erum að fara að spila þennan landsleik og ég held að það væri sniðugt að leggja þetta mál til hliðar og gefa báðum liðum, þjálfurum og leikmönnum, frið til að undirbúa sig fyrir sína leiki."

Nánar verður rætt við Ólaf í Fréttablaðinu á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×