Enski boltinn

Manchester City mun hætta að eyða svona miklu í leikmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hluti af nýju leikmönnum Manchester City í haust.
Hluti af nýju leikmönnum Manchester City í haust. Mynd/AP
Brian Marwood, yfirmaður hjá enska úrvalsdeildarliðinu Manchester City horfir fram á aðra stefnu hjá félaginu en hefur verið á þeim rúmu tveimur árum síðan að Sheikh Mansour eignaðist félagið.

Sheikh Mansour bin Zayed al-Nahyan frá Abu Dhabi eignaðist Manchester City í ágúst 2008 og hefur síðan þá eytt 500 milljónum punda, aðallega í nýja leikmenn og laun.

„Félagið fór frá því að vera í 10. sæti fyrir tveimur árum í það að rétt missa af Meistaradeildinni síðasta vor og það án leikmanna eins og Yaya Touré og David Silva. Við erum búnir að taka ára 10 ára ferli og troða því inn á 12 til 18 mánuði. Nú förum við að róa okkur í leikmannakaupum og bíðum eftir að liðið vinni út úr því sem það hefur," sagði Brian Marwood við Guardian.

Marwood segir líka að félagið ætli sér að efla unglingastarf félagsins og að Sheikh Mansour sé búinn að fjárfesta mikið í aðstöðu og aðbúnaði framtíðarleikmanna Manchester City. Stefnan sé að ungir uppaldir leikmenn muni síðan taka við af hálaunleikmönnum City-liðsins í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×