Fótbolti

Maradona ekki áfram landsliðsþjálfari Argentínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maradona með Hugo Chavez, forseta Venesúla, í síðustu viku.
Maradona með Hugo Chavez, forseta Venesúla, í síðustu viku. Nordic Photos / AFP

Diego Maradona verður ekki áfram landsliðsþjálfari Argentínu en knattspyrnusamband landsins greindi frá því í kvöld.

Samningur Maradona var útrunninn og verður ekki endurnýjaður. Argentína féll úr leik í fjórðungsúrslitum HM í Suður-Afríku eftir 4-0 tap fyrir Þýskalandi.

Maradona gaf í skyn að hann vildi halda áfram en aðeins ef hann fengi að halda öllum sínum starfsmönnum áfram. Talið er líklegt að það hafi reynst óásættanlegt af hálfu knattspyrnusambands Argentínu og Julio Grondona, forseti þess, var sagður vilja hrista upp í starfsliði landsliðsins.

Undir stjórn Maradona átti Argentína erfitt uppdráttar í undankeppni HM 2010 en komst þó til Suður-Afríku þar sem liðið sýndi lipra takta og vann fyrstu fjóra leiki sína á mótinu.

Argentína mætir Írlandi í vináttulandsleik í Dublin í næstu viku og er vonast til að búið verði að ganga frá ráðninu nýs landsliðsþjálfara fyrir þann tíma. Alejandro Sabella, þjálfari Estudiantes, er nú talinn líklegasti eftirmaður Maradona.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×