Enski boltinn

YNWA hefur fengið nýja þýðingu hjá Liverpool-mönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/AP
Lagið "You will never walk alone" er heimsfrægur baráttusöngur Liverpool-manna og að eilífu tengt félaginu en eftir enn eitt tapið á útivelli í kvöld hafa stuðningsmenn Liverpool undið nýja þýðingu fyrir skammstöfunina YNWA.

Samkvæmt twitter-færslu sem fór alla leið inn á beina lýsingu BBC frá leikjum kvöldsins þá eru margir Liverpool víst búnir að setja inn skammstöfuna YNWA inn á fésbókarsíðu sína.

Þeir eru víst ekki að skammstafa "You will never walk alone" heldur eru þeir að vísa til orðanna "You'll Never Win Away" eða "Þú munt aldrei vinna á útivelli", fært upp á íslenska tungu.

Liverpool er nefnilega aðeins búið að vinna einn útileik af níu í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og er aðeins í 17. sæti yfir bestan árangur liðanna á útivelli. Liðið hefur bara fengið fimm stig af 27 mögulegum í útileikjum sínum og markatalan er hörmuleg eða 6-16.

Það er því ekkert skrýtið að stuðningsmenn Liverpool-liðsins feli sig á bak við smá orðaleik á meðan þeir gráta enn eitt tapið á útivelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×