Enski boltinn

Arsene Wenger vill ekki að Wilshere spili á EM næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere.
Jack Wilshere. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur varað enska knattspyrnusambandið við að taka Jack Wilshere með á EM 21 árs landsliða næsta sumar. Hann segir að hans maður þurfi hvíld næsta sumar eftir erfitt tímabil.

Enska 21 árs landsliðið er eitt átta landa sem á lið á EM 21 árs liða en þar á meðal er Ísland. England er í riðli með Úkraínu, Spáni og Tékklandi en Ísland er í riðli með Danmörku, Sviss og Hvíta-Rússlandi.

Wenger vill passa upp á álagið á sinn strák sem hefur fengið stórt hlutverk hjá honum í Arsenal-liðinu á þessu tímabili þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall. Jack Wilshere hefur skorað 2 mörk og gefið 7 stoðsendingar í 21 leik fyrir Arsenal á tímabilinu en hann hefur þegar spilað í 1553 mínútur á leiktíðinni.

„Í fyrsta lagi þarf enska sambandið á ákveða það hvort leikmaður sé A-landsliðsmaður eða í 21 árs landsliðinu. Það er mín persónulega skoðun að leikmaður, sem hefur verið með A-landsliðinu en kemur síðan niður í 21 árs landsliðið, eigi alltaf í vandræðum með að ná fram sínu besta. Það er mín reynsla," sagði Wenger.

„Í öðru lagi þurfa menn að setjast niður í lok tímabils og skoða hversu marga leiki Wilshere hefur spilað á tímabilinu áður en menn láta hann spila á EM. Strákurinn vill spila og það er jákvætt. Það mun samt aldrei ganga að spila með Arsenal fram í júní og fara síðan að spila á EM í framhaldinu af því. Leikmaður sem er aðeins átján ára gamall og hefur spilað yfir 40 leiki á tímbilinu, þarf á hvíld að halda í júní," sagði Wenger.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×