Enski boltinn

Nettar afgreiðslur Nasri um helgina - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Frakkinn Samir Nasri skoraði tvö af fallegustu mörkum helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni þegar hann tryggði Arsenal 2-1 sigur á Fulham og um leið toppsætið í deildinni.

Nasri hefur verið í frábæru formi á tímabilinu en hann hefur þegar skorað ellefu mörk fyrir Arsenal í öllum keppnum.

„Ég er miklu afslappaðari fyrir framan markvörðinn núna. Ég er líka rólegri í mínum leik og er ekki bara að leitast eftir því að skora því ég er bara að reyna að hjálpa mínu liði," sagði Samir Nasri.

„Ég tel að ég sé orðinn miklu þroskaðri leikmaður í dag og reyni að nota meira hausinn inn á vellinum," sagði Nasri.

Samir Nasri fagnar seinna marki sínu.Mynd/AP

Líkt og með alla aðra leiki í ensku úrvalsdeildinni þá er hægt að skoða mörkin úr leiknum sem og allt það helsta sem gerðist.

Hægt að er nálgast mörkin hans Nasri með því að skoða myndbandið sem fylgir með þessari frétt en mörkin hans tvö koma annarsvegar eftir 24 sekúndur og hinsvegar eftir 1 mínútu og 31 sekúndu. Það er vel þess virði að skoða þessar nettu afgreiðslur Nasri.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er líka ánægður með leikmanninn sinn.

„Það efuðust margir um réttmæti þeirrar ákvörðunar minnar að fá hann til Arsenal en hann er að sýna að hann er mjög hæfileikaríkur leikmaður. Ég held líka að það sé von á meiru frá honum," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×