Enski boltinn

Ég vil komast þangað þar sem ég verð heimsklassa leikmaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar sínu fyrsta marki fyrir brasilíska landsliðið.
Neymar fagnar sínu fyrsta marki fyrir brasilíska landsliðið. Mynd/AP
Brasilíumaðurinn Neymar hefur slegið í gegn með bæði brasilíska liðinu Santos, sem og brasilíska landsliðinu. Nú dreymir kappann um að spila fyrir enska liðið Chelsea en hann var orðaður við ensku meistarana í haust.

Samkvæmt heimildum enskra fjölmiðla bauð Chelsea án árangurs 25 milljónir punda í þennan 18 ára framherja í haust en tilboðið fékk hörð viðbrögð í Brasilíu þar sem stuðningsmenn, fyrrum stórstjörnur og meira að segja forseti Brasilíu tókst að sannfæra Neymar að spila áfram hjá Santos.

Neymar skrifaði í kjölfarið undir nýjan samning við Santos til ársins 2015 og hefur nú gert 33 mörk í 47 leikjum fyrir Santos á árinu 2010. Neymar hefur þó ekki gleymt drauminum um að fá tækifæri til þess að spila í ensku úrvalsdeildinni.

„Leikmaður sem vill vinna jafnmikið og ég á að spila í bestu liðum heims eins og Chelsea. Santos er mitt félag og ég elska að spila þar. Málið er bara að hér er deildin ekki eins sterk og enska úrvalsdeildin," sagði Neymar.

„Ég vil komast þangað þar sem ég verð heimsklassa leikmaður. Ég hef metnað fyrir því að verða besti fótboltamaður í heimi og ég vil fá tækifæri til að spila í stærstu keppnunum," sagði Neymar fullur sjálfstraust eins og vanalega.

„Ég horfi alltaf á ensku deildina ef ég get. Ég hef gaman af hraðanum og hversu leikurinn er beinskeyttur. Chelsea hefur frábæra leikmenn eins og Didier Drogba og Frank Lampard og væri mjög spenntur að fá að spila með þeim," sagði Neymar en til að svo verði þarf hann að koma fljótlega á Brúnna því ferill beggja þessara kappa er farinn að styttast í annan endann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×