Fótbolti

Leggjum allt undir í Ísrael

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari íslenska landsliðsins, stefnir á sigur í Ísrael í kvöld.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari íslenska landsliðsins, stefnir á sigur í Ísrael í kvöld. Fréttablaðið/Anton
Ísland mætir Ísrael í vináttulandsleik sem fer fram á Bloomfield-leikvanginum í Tel Aviv í kvöld. Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, segir að engan bilbug sé að finna á sínum mönnum þrátt fyrir að sjö leikmenn hafi þurft að draga sig úr hópnum af ýmsum ástæðum.

„Það er svo sem ekkert nýtt að menn forfallist en það er óvenjulega mikið um það núna,“ segir Ólafur við Fréttablaðið. „Við verðum aðeins með sextán leikmenn á skýrslu að þessu sinni en megum vera með átján. Það voru aðeins átján leikmenn boðaðir út og kannski hefðum við átt að fara með fleiri leikmenn. En leikurinn er í annarri heimsálfu og þetta er erfitt ferðalag.“

Nú síðast duttu þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson úr liðinu vegna meiðsla sem þeir urðu fyrir í leikjum sinna liða um helgina. Fyrirvarinn var skammur og ekki tókst að boða nýja menn í liðið í þeirra stað. „Ég er þó með sterkt lið hér úti og og mun nota þennan leik alveg eins og ég ætlaði að gera áður,“ segir Ólafur, sem ætlar að leggja áherslu á að bæta sóknarleik íslenska liðsins í kvöld.

„Ég hef áður sagt að við erum örlítið ragir þegar við fáum boltann og vil ég að menn þori að halda boltanum innan liðsins án þess að gefa hann auðveldlega eða klaufalega frá sér. Ef það tekst er sá möguleiki fyrir hendi að færa okkur framar á völlinn og skapa okkur fleiri færi við mark andstæðingsins. Þetta hefur lengi verið vandamál hjá íslenska landsliðinu,“ segir Ólafur.

„Sóknarleikurinn hjá okkur hefur verið ágætur inni á milli en dottið niður eins og gengur og erist. Við höfum líka verið mikið að hugsa um varnarleikinn og menn hafa því verið hræddir við að sækja fram. Við erum að reyna að vinna í því.“

Ólafur stillir upp að stærstum hluta ungu liði í kvöld. „Það stóð alltaf til að ungir leikmenn fengju tækifæri í þessum leik til að öðlast dýrmæta reynslu. Ég veit líka að menn munu gefa sig alla í leikinn og meðan svo er verðum við í fínum málum. Við ætlum að vinna þennan leik og leggjum allt undir svo að það takist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×