Enski boltinn

Barton: Engin andstaða gegn Pardew í leikmannahópnum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Barton átti frábæran leik á laugardaginn.
Barton átti frábæran leik á laugardaginn.

Joey Barton, leikmaður Newcastle, blæs á þær sögusagnir að það ríki andstaða í leikmannahópi liðsins gegn knattspyrnustjóranum Alan Pardew. Nokkrir leikmenn liðsins eru þó efins um að ráðning hans hafi verið rétt skref.

„Það eru fullt af sögum í gangi um hvað sé um að vera í búningsklefanum okkar. Maður hefur heyrt að við séum að skipuleggja byltingu. Okkur þykir það vænt um okkur sjálfa að við erum ekki að fara að gera neitt svo ófaglegt," segir Barton.

„Það er mjög góður andi í hópnum og við vitum að það er ekki Pardew að kenna að Chris Hughton var rekinn. Það var ákvörðun sem stjórnin tók," segir Barton.

„Við vitum ekki enn hver er ástæða þess að Chris var látinn fara. Okkur var sagt að það hefði verið gert til að koma liðinu upp á næsta stall. Margir okkar settu spurningamerki við ráðningun á Alan."

„Við funduðum með honum og sögðum honum að enginn okkar ætlaði sér að baktala hann. Við vildum segja okkar skoðun við hann augliti til auglitis. Það ríkir mikil hreinskilni í klefanum hjá okkur. Við létum hann vita að það voru okkur vonbrigði að Chris væri að fara því hann er í miklum metum hjá okkur."

„Þá létum við hann vita að við værum meðvitaðir um að það væri ekki hans sök að Chris væri farinn. Við sögðum honum að svo lengi sem hann væri opinn og hreinskilinn gagnvart okkur yrði þetta ekkert vandamál. Við viljum að félagið taki skref áfram," sagði Barton sem átti stórleik á laugardaginn þegar Newcastle vann Liverpool 3-1 í fyrsta leik liðsins undir stjórn Pardew.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×