Enski boltinn

Berbatov: Sumarvinnan borgar sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov fagnar marki um helgina.
Dimitar Berbatov fagnar marki um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Dimitar Berbatov segir að sú vinna sem hann lagði á sig í sumar sé að borga sig nú í upphafi tímabilsins hjá Manchester United.

Berbatov gekk í raðir United árið 2008 en átti erfitt með að finna sína fjöl á fyrstu tveimur árum sínum hjá félaginu.

En hann hefur slegið í gegn í haust og skorað sex mörk í fimm úrvalsdeildarleikjum, þar af þrennu í 3-2 sigri United á Liverpool um helgina.

„Mér fannst leiðinlegt að geta ekki glatt alla stuðningsmenn liðsins," sagði Berbatov í samtali við enska fjölmiðla. „Eins ég ef áður sagt þá er fólkið sem styður Manchester United dómararnir og þannig á það að vera. Þetta er þeirra lið. Ég er gestur og það eru mér mikil forréttindi."

„Nú finnst mér eins og að allt sem ég gat ímyndað mér að gæti gerst hjá mér inn á vellinum sé að rætast og er það frábær tilfinning."

„Ég hef lagt mikið á mig og ég hef bætt formið. Ég er ekki mikið fyrir lóðin eins og sést sjálfsagt á mér en ég hef meira að segja reynt að vinna í því," sagði hann.

„Ég hljóp sex mílur (tæpir tíu kílómetrar) í sumar. Ég horfði á leik á HM. Svo fór ég út að hljópa. Svo horfði ég á annan leik og fór svo aftur út að hlaupa. Það var rútínan mín."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×