Enski boltinn

Markalaust hjá Aston Villa og Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea mistókst að koma sér í sjö stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í dag er liðið gerði markalaust jafntefli við Aston Villa.

Heimamenn byrjuðu betur og þeir Stephen Ireland og John Carew áttu hættulegustu færi Aston Villa í fyrri hálfleik.

Chelsea spilaði betur í síðari hálfleik og Branislav Ivanovic og Nicolas Anelka áttu báðir skalla í markrammann.

Ciaran Clark átti einnig marktilraun sem hafnaði í stönginni fyrir Villa og þá fékk Nigel Reo-Coker dauðafæri fyrir heimamenn á lokasekúndum leiksins.

Chelsea má því vera sæmilega ánægt með stigið í dag enda hefur liðinu yfirleitt gengið illa á útivelli gegn Aston Villa sem er í áttunda sæti deildarinnar með ellefu stig eftir leiki dagsins.

Chelsea er með nítján stig en fjögur lið - Arsenal, Manchester United, Manchester City og Tottenham - koma næst með fjórtán.

West Brom, sem náði óvæntu jafntefli gegn United í dag, er svo í sjötta sætinu með tólf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×