Enski boltinn

Di Matteo: Frábær sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Di Matteo, stjóri West Brom.
Roberto Di Matteo, stjóri West Brom. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Di Matteo, stjóri West Brom, var eðlilega kampakátur með sigur sinna manna á liði Arsenal á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í dag.

Þrátt fyrir að Manuel Almunia varði víti frá Chris Brunt, leikmanni West Brom, í fyrri hálfleik, komust gestirnir í 3-0 forystu með mörkum Peter Odemwingie, Gonzalo Jara og Jerome Thomas.

Samir Nasri minnkaði muninn fyrir Arsenal með tveimur mörkum undir lok leiksins en allt kom fyrir ekki.

„Þetta var frábær sigur á Emirates-vellinum. Við fengum þrjú stig, klifum upp töfluna og öðlumst einnig meiri sjálfstraust og trú á okkur sjálfum," sagði Di Matteo.

„Við vildum setja pressu á þá strax frá byrjun leiks um allan völlinn. Okkur tókst að gera það og við náðum að stela boltanum af þeim nokkuð snemma. Við vorum þar að auki það heppnir að ná að skora nokkur mörk sem hjálpar alltaf til."

„En maður veit líka að það má aldrei afskrifa Arsenal þar til leiknum lýkur," bætti hann við.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að liðið hefði átt skilið að tapa í dag en þetta var fyrsta tap Arsenal á heimavelli síðan að liðið mætti Manchester United í janúar síðastliðnum.

„Við vorum lélegir og áttum skilið að tapa leiknum. Við vorum bara ekki tilbúnir í þetta verkefni, hvorki hvað varðar gæði okkar leiks né heldur einbeitingu leikmanna," sagði Wenger.

Með sigri hefði Arsenal minnkað forystu Chelsea á toppi deildarinnar í eitt stig en síðarnefnda liðið tapaði fyrir Manchester City í hádeginu í dag, 1-0. Arsenal er enn í öðru sæti deildarinnar þrátt fyrir tapið.

„Það er ekki of mikill skaði skeður en engu að síður vill maður ekki sjá liðið sitt tapa svona leik," bætti Wenger við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×