Enski boltinn

Kuszczak: Gæti þurft að fara frá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomasz Kuszczak í leik með United á síðustu leiktíð.
Tomasz Kuszczak í leik með United á síðustu leiktíð. Nordic Photos / Getty Images
Pólverjinn Tomasz Kuszczak viðurkennir að hann gæti þurft að yfirgefa Manchester United ef hann fær ekki að spila meira en hann hefur fengið að gera að undanförnu.

Kuszczak er nú á sínu sjötta tímabili hjá United og verður væntanlega í byrjunarliðinu í kvöld þegar liðið mætir Scunthorpe í ensku deildabikarkeppninni. Það verður hans 53. leikur með félaginu.

Edwin van der Sar er aðalmarkvörður United þó svo að hann sé óðum að nálgast fertugsaldurinn. Vangaveltur hafa verið um að Alex Ferguson sé nú að leita að eftirmanni hans.

Ben Foster fór frá United í sumar og til Birmingham og hefur síðan þá endurheimt sæti sitt í enska landsliðinu.

„Ég skil ákvörðun Ben vel," sagði Kuszczak í samtali við enska fjölmiðla. „Hann vildi fara annað því hann vildi fá að spila reglulega og komast aftur í enska landsliðið."

„Ef ég fæ ekki að spila nægilega mikið verð ég að fylgja hans fordæmi. Tíminn líður og eftir tímabilið verð ég orðinn 29 ára gamall. Ég vil njóta fótboltans og fá að spila."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×