Innlent

Fjarðabyggð: Meirihluti myndaður

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur í Fjarðabyggð hafa náð saman um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar á kjörtímabilinu sem nú er að hefjast. Í tilkynningu segir að stjórnir og framboðslistar félaganna hafi samþykkt drög að málefnasamningi milli þessarar framboða. Hann verða fullgerður á næstu dögum og birtur opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins þegar ný bæjarstjórn tekur við á fyrsta fundi sínum þann 15.júní næstkomandi ásamt því að hann verður kynntur í endanlegri mynd innan framboðanna.

Jón Björn Hákonarson, oddviti B-lista, mun verða forseti bæjarstjórnar og Jens Garðar Helgason, oddviti D-lista, mun verða formaður bæjarráðs á kjörtímabilinu og mun verða fullt jafnræði með framboðunum með skiptingu verka í hinum nýja meirihluta.

Þá hafa framboðin ákveðið að auglýst verður eftir nýjum bæjarstjóra í Fjarðabyggð nú í júní, segir að lokum.

Þetta er í fyrsta sinn sem sjálfstæðismenn komast í meirihluta í þessu stærsta bæjarfélagi Austurlands og Fjarðalistinn, sem hefur verið í meirihluta frá stofnun bæjarfélagsins, verður í minnihluta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×