Fótbolti

Enginn HM-leikmaður Frakka fær að spila næsta landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP

Franska knattspyrnusambandið hefur ákveðið það að allir 23 leikmennirnir sem tóku þátt í HM í Suður-Afríku og neituðu að æfa, fái ekki að taka þátt í næsta landsleik sem er vináttulandsleikur á móti Norðmönnum í Osló 11. ágúst næstkomandi.

Franska liðið fór í eins dags æfinga-verkfall eftir að franska sambandið rak Nicolas Anelka heim fyrir að úthúða Raymond Domenech í hálfleik á leik Frakka og Mexíkó.

Laurent Blanc, nýr landsliðsþjálfari Frakka, óskaði eftir því franska sambandið refsaði leikmönnunum með þessum hætti en hans bíður krefjandi verkefni að byggja upp landsliðið úr rústunum frá HM.

„Ég get augljóslega ekki látið eins og ekkert hafi gerst í Suður-Afríku," sagði Blanc. „Ég fylgdist sorgmæddur með þessu. Ég varð fyrir vonbrigðum með úrslitin og hneykslaður með hegðun leikmannanna," sagði Blanc.

Frakkar unnu engan leik á HM og skoruðu aðeins eitt mark í þremur leikjum. Liðið var neðst í sínum riðli og endaði í 29. sæti af 32 liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×