Enski boltinn

Hodgson baðst afsökunar á tapinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson var niðurlútur eftir leikinn í gær.
Roy Hodgson var niðurlútur eftir leikinn í gær. Nordic Photos / Getty Images

Roy Hodgson, stjóri Liverpool, bað stuðningsmenn liðsins afsökunar á tapi þess fyrir Northampton í ensku deildabikarkeppninni í gær.

Northampton vann í vítaspyrnukeppni eftir að framlengdum leik lauk með 2-2 jafntefli.

„Við vorum að spila gegn neðrideildarliði og sama hvað gerist þá er það afar neikvætt ef við náum ekki að vinna slíkan leik," sagði Hodgson eftir leikinn í gær.

„Þetta er bakslag fyrir félagið og eitt af mörgum sem við þurfum að takast á við í augnablikinu."

Liverpool hefur einnig gengið illa í upphafi tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni og aðeins unnið einn af fimm leikjum þar.

„Ég vissi alltaf að þetta yrði krefjandi og erfitt starf. Byrjunin á tímabilinu hefur ekki verið okkur hagstæð en svona er þetta í fótboltanum. Ég varð fyrir vonbrigðum með frammistöðuna og átti von á meiru."

Hodgson gerði margar breytingar á liði Liverpool í leiknum en hann sagði það enga afsökun.

„Þetta eru leikmenn sem voru fengnir til félagsins og margir þeirra voru mjög dýrir og með stórt og mikið orðspor. Kannski þekki ég þá ekki nógu vel en þeir voru ekki að hrífa mig mikið."

„Þetta var tækifæri fyrir leikmenn að sýna hvað þeir geta. Því miður og með fullri virðingu fyrir Northampton vorum við ekki nógu góðir til að vinna leikinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×