Enski boltinn

Hodgson: Frammistaðan þrátt fyrir allt góð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson á hliðarlínunni í dag.
Roy Hodgson á hliðarlínunni í dag. Nordic Photos / Getty Images
Roy Hodgson segir að miðað við spilamennsku Liverpool þessa dagana er liðið ekki á leiðinni að endurheimta sæti í Meistaradeild Evrópu.

Fjögur efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu en Liverpool olli miklum vonbrigðum á síðasta tímabilið er liðið varð í sjöunda sæti.

Liðinu hefur gengið enn verr í upphafi nýs tímabils og er í sextánda sæti deildarinnar með fimm stig eftir jafn marga leiki. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Sunderland á heimavelli í dag.

Til að bæta gráu á svart þá tapaði Liverpool fyrir D-deildarliði Northampton í ensku deildabikarkeppninni í vikunni. Roy Hodgson, sem tók við Liverpool í sumar, skipti út öllu byrjunarliðinu úr þeim leik fyrir leikinn gegn Sunderland í dag.

„Þetta voru ekki úrslitin sem við vildum. Við vildum sigur. En á margan hátt var þetta frammistaðan sem við vildum," sagði Hodgson sem lagði þrátt fyrir allt áherslu á hið jákvæða í leiknum en Liverpool tókst þó að jafna metin eftir að hafa lent undir í síðari hálfleik.

Darren Bent skoraði bæði mörk Sunderland í leiknum, það fyrra úr víti sem var dæmt á Christian Poulsen fyrir að handleika knöttinn innan teigs.

„Mér fannst að dómarinn hafi verið að bæta fyrir mistök með því að dæma víti," sagði Hodgson. Dirk Kuyt hafði þá skorað umdeilt mark fyrir Liverpool. Hann komst inn í sendingu varnarmanns Sunderland sem sendi boltann aftur til markvarðar til að taka aukaspyrnu. Dómarinn leit svo á að varnarmaðurinn hefði tekið aukaspyrnuna og lét markið standa.

„Ég tel ekki að það eigi að dæma hendi þegar um bolti fer óviljandi í hönd leikmanns. Slík brot eiga alltaf að vera viljandi og það segir mér enginn að þetta hafi verið viljandi hjá honum," sagði Hodgson sem sendi fjölmiðlamönnum einnig tóninn.

„Það kemur mér alltaf svolítið á óvart hvað þið fjölmiðlamenn eruð fljótir að afskrifa andstæðinga. Sunderland er gott lið með góða leikmenn. Ef við verjumst ekki vel munu þeir skapa okkur usla."

„En þegar ég lít á allan leikinn fannst mér við svo sannarlega eiga meira skilið en þetta eina stig sem við fengum. Ég er viss um að stuðningsmennirnir kunni að meta að leikmenn lögðu sig alla fram. Þetta er skref í rétta átt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×