Fótbolti

Egyptar komnir áfram í átta liða úrslitin í Afríkukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egyptinn Mohamed Zidan í leiknum í gær.
Egyptinn Mohamed Zidan í leiknum í gær. Mynd/AFP

Afríkumeistarar Egypta eru komnir áfram í átta liða úrslit Afríkukeppninnar eftir 2-0 sigur á Mósambík í annarri umferð C-riðils í Afríkukeppninni í Angóla. Nígería vann nauman 1-0 sigur á Benín og er í öðru sæti riðilsins.

Fyrra mark Egypta var sjálfsmark leikmanns Mósambík á 47. mínútu en Mohamed Nagy Gado innsiglaði síðan sigurinn á 81. mínútu leiksins en þetta var annað mark hans í keppninni.

Yakubu Aiyegbeni,leikmaður Everton, tryggði Nígeríu 1-0 sigur á Benín með marki úr vítaspyrnu á 42. mínútu.

Egyptar eru með sex stig og hafa gulltryggt sig áfram upp úr riðlinum. Nígería er með þrjú stig en bæði Benín og Mósambík hafa síðan fengið eitt stig. Benín mætir Egyptalandi í síðustu umferð á sama tíma og Nígería spilar við Mósambík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×