Enski boltinn

Ferguson brjálaður út í aðstoðardómarann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það sauð á Sir Alex Ferguson, stjóra Man. Utd, eftir tapið gegn Chelsea í dag. Seinna mark Chelsea í leiknum var augljóst rangstöðumark en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum lyfti aðstoðardómarinn ekki flaggi sínu.

„Ég skil þetta ekki því Drogba er beint fyrir framan nefið á aðstoðardómaranum. Það er enginn nálægt honum en samt tekst honum að gera þessi mistök. Í svona stórleik þarf gæðadómara og við fengum þá svo sannarlega ekki í dag. Þetta var afar döpur frammistaða," sagði Ferguson reiður.

United vildi fá tvö víti í leiknum og Chelsea eitt. Ekkert var dæmt. Mike Dean dæmdi leikinn en hann hefur verið töluvert í sviðsljósinu upp á síðkastið og var mikið rætt um hann fyrir leikinn. Aðspurður hvort sú umræða hefði haft áhrif á Dean sagði Ferguson.

„Ég veit ekkert um það en þegar ég sá að Mike Dean ætti að dæma leikinn varð ég áhyggjufullur, ég verð að viðurkenna það," sagði Ferguson.

Chelsea er nú tveimiur stigum á undan United þegar fimm umferðir eru eftir.

„Þeir eiga tvö stig og fjögur mörk. Chelsea er í bílstjórasætinu."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×