Enski boltinn

Redknapp tók áhættu með því að nota Van der Vaart í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, viðurkenndi það eftir 2-1 sigur liðsins á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í gær að hann hafi verið í vafa um hvort rétt væri að nota Rafael van der Vaart í þessum leik. Hollendingurinn skoraði bæði mörk Tottenham í leiknum en hann var búinn að vera frá í þrjá leiki vegna meiðsla.

„Ég tók áhættuna því hann hefur verið í vandræðum með tognanir aftan í læri. Hann er í hættu á að meiðast þegar hann þreytist í leikjunum," sagði Harry Redknapp við Sky Sports.

Rafael van der Vaart skoraði mörkin sína á 23. og 67. mínútu með lúmskum skotum og það er hægt að sjá þau með því að skoða svipmyndir úr leiknum hér að ofan.

„Hann fór á HM og spilaði þar stórt hlutverk með hollenska landsliðinu og náði því ekki fullu undirbúningstímabili. Þegar hann þreytist þá hefur hann tilhneigingu til að meiðast og ég hafði áhyggjur af því," sagði Redknapp.



Rafael Van Der Vaart.Mynd/Nordic Photos/Getty
„Hann spilaði líklega tíu mínútum lengur en hann átti að gera. Það var bara svo mikilvægt fyrir okkur að hann gat haldið boltanum," sagði Redknapp en Tottenham lék manni færri frá því í fyrri hálfleik.

„Hann er búinn að vera frábær fyrir okkur og er maður sem er að skora milli 15 og 20 mörk á tímabili. Hann hefur allt til alls og er ekki bara mikill markaskorari því hann er líka frábær alhliða fótboltamaður," sagði Redknapp.

Rafael van der Vaart hefur skorað 8 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 12 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×