Enski boltinn

Joe Cole: Ég er ekki að spila vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole.
Joe Cole. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joe Cole, leikmaður Liverpool, er búinn að viðurkenna það að hann hafi ekki verið í verra formi á ferlinum. Cole hefur lítið hjálpað til hjá sínu nýja félagi sem er eins og í 19. og næstsíðasta sætinu í ensku úrvalsdeildinni.

„Við erum ekki að spila vel og ég er ekki að spila vel. Ég veit það samt að ég er hjá félagi sem kemut til með að hjálpa mér í gegnum þetta. Ég býst við meiru af sjálfum mér," sagði Joe Cole sem gerði ekki mikið af viti í tapi á móti Everton um helgina.

„Það voru mikil vonbrigði að tapa svona stórum leik en það versta sem við getum gert í þessari stöðu er að fara að benda á hvern annan. Við verðum að horfa í eigin barm," sagði Cole.

„Ég verð að finna formið mitt sem fyrst og ég er viss um að það takist hjá mér. Þetta er búin að vera mjög erfið byrjun með mörgum slæmum úrslitum. Við getum samt ekkert breytt því núna, við erum þar sem við erum og þurfum bara að einbeita okkur að komast þaðan," sagði Cole.

„Ég ætla að gera allt til þess að spila vel fyrir Liverpool. Ég hef aldrei lent í svona stöðu áður og þetta er mikil áskorun fyrir mig. Við verðum bara að byrja á því að ná einum sigri og byggja ofan á hann. Við stöndum allir á bak við stjórann og við höfum allir trú á þessu liði," sagði Joe Cole.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×