Enski boltinn

Fabregas: Við viljum fara að vinna þessa stóru leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas á æfingu með Robin Van Persie og Thomas Vermaelen.
Cesc Fabregas á æfingu með Robin Van Persie og Thomas Vermaelen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, lifir enn í voninni um að ná stórleiknum á móti Manchester United á mánudagskvöldið. Þar mætast tvö efstu liðin á sannköllum toppslag á Old Trafford.

„Ef ég get spilað þá mun ég spila. Þetta er risaleikur á mánudaginn og við gætum náð fjögurra stiga forskoti á toppnum ef að við vinnum," sagði Cesc Fabregas í viðtali við The Sun.

„Við ætlum að mæta á Old Trafford til þess að vinna. Það gæti verið sterk skilboð frá okkur um að við ætlum alla leið í ár. Við ætlum okkur að klára þennan leik," sagði Fabregas.

„Þetta er annars skrýtnasta tímabilið síðan að ég kom hingað. Vanalega eru toppliðin komin með 40 stig eða meira í desember en við erum á toppnum með 32 stig. það er furðulegt," segir Fabregas.

„Ekkert af toppliðunum er að spila sinn besta bolta og eiga því erfitt með að slíta sig frá hinum liðunum. Við í Arsenal erum ánægðir með að vera í toppsætunu en við erum búnir að tapa fullt af leikjum og mörgum þeirra á heimavelli. Það er mjög óvenjulegt," sagði Fabregas.

Cesc Fabregas.Mynd/AP
„Við viljum fara að vinna þessa stóru leiki og komast í úrslitaleikina því við erum staðráðnir að vinna eitthvað í vetur," sagði Fabregas en Arsenal hefur ekkert unnið síðan árið 2005.

„Við erum í góðri stöðu og höfum mikið sjálfstraust. Við erum að vinna leiki og skora mörk. Við trúum því að við getum unnið alla allstaðar," sagði Fabregas.

„Við þurfum samt að bæta okkur enn meira ef að við ætlum að vinna ensku úrvalsdeildina. Við erum að vinna leiki en þurfum að verjast betur og sækja betur. Við gerum líka sýnt sterkari liðsheild," sagði Fabregas.

„Þetta verður mjög erfitt því ég er viss um að Chelsea og United komist bæði á skrið og munu berjast allt til enda. Við þurfum að vinna sem flesta leiki og við getum og það er hvergi betra að byrja á því en á Old Trafford," sagði Fabregas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×