Enski boltinn

Ferguson: Liverpool bauð ekki upp á neitt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ferguson var ekki alltaf sáttur við dómgæsluna í dag.
Ferguson var ekki alltaf sáttur við dómgæsluna í dag.

Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, viðurkenndi eftir dramatískan sigur United á Liverpool í dag að hann hefði óttast að sitt lið myndi ekki fá neitt úr leiknum.

"Við áttum að vera svona 10-0 yfir en allt í einu var staðan 2-2. Það var hrikalegt hvernig leikurinn þróaðist en frábær úrslit á endanum," sagði Ferguson.

"Liverpool bauð ekki upp á neitt í dag og treysti á ákvarðanir frá aðstoðardómaranum til þess að komast aftur inn í leikinn. Það var ekkert að gera hjá Van der Sar í markinu, Paul Scholes átti miðjuna og við vorum alltaf hættulegir í sókninni. Við áttum ekki að geta tapað þessum leik."

Ferguson gladdist yfir því að Berbatov skyldi hafa skorað fyrstu þrennu leikmanns United gegn Liverpool í leiknum.

"Hann var mikið gagnrýndur í fyrra. Slíkt gerist þegar menn eru keyptir á háar fjárhæðir. Þannig gengur þetta fyrir sig. Hann hefur verið frábær í vetur. Ég hef aldrei efast um hæfileika hans."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×