Enski boltinn

Capello á eftir að meta það hvort Rooney sé klár í leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Fabio Capello.
Wayne Rooney og Fabio Capello. Mynd/AFP
Wayne Rooney fór með enska liðinu til Sviss í morgun þrátt fyrir að allt sé á öðrum endanum í einkalífinu eftir að News of the World og Sunday Mirror birtu frétt um Rooney hafi haldið framhjá unnustu sinni á meðan hún var ólétt. Það er þó ekki víst að Ropney muni spila leikinn.

Leikmenn enska liðsins hafa lýst yfir stuðningi við Rooney sem fór á kostum í leiknum á móti Búlgaríu á föstudaginn þar sem hann átti þátt í undirbúningi allra marka liðsins. Ensku blöðin hafa hinsvegar slegið upp framhjáhaldi hans tvo daga í röð og það er öllum ljóst að þetta mál hefur haft mikil áhrif á þennan framherja Manchester United.

Fabio Capello, þjálfari enska liðsins, á eftir að tala við Rooney fyrir leikinn og meta það hvort leikmaðurinn sé tilbúinn að spila leikinn við Sviss sem fram fer á morgun.

Verði Rooney ekki klár í slaginn er líklegt að annaðhvort Carlton Cole eða Darren Bent fái tækifæri í leiknum. Peter Crouch og Bobby Zamora eru báðir frá vegna meiðsla og því er breidd sóknarmann enska liðsins mun minni en oft áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×