Innlent

„Kærðu mig líka, Ásta“

Mörður segir að ákæran sé pólitísk og augljóslega ætlað að vara almenning við mótmælum í framtíðinni. „Kærðu mig líka, Ásta,“ segir varaþingmaðurinn.
Mörður segir að ákæran sé pólitísk og augljóslega ætlað að vara almenning við mótmælum í framtíðinni. „Kærðu mig líka, Ásta,“ segir varaþingmaðurinn.
„Ég hef skrifað undir áskorunina sem nú er á leiðinni til yfirvalda vegna máls nímenninganna. Kærðu mig líka, Ásta!" segir Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar. Hann gagnrýnir að ákæra hafi verið gefin út í máli mótmælenda sem ruddust inn í Alþingi í búsáhaldabyltingunni. Ákæran eigi ekkert skylt við öryggi. Hún sé pólitísk og augljóslega ætlað að vara almenning við mótmælum í framtíðinni.

Mál níu mótmælenda sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi í desember 2008 verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir eiga yfir höfði sér að minnsta kosti eins árs fangelsi verði þeir fundnir sekir.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis og flokkssystir Marðar, segir í svari við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, sem lagt var fram á Alþingi í gær að það hafi verið skrifstofustjóri Alþingis sem óskaði eftir lögreglurannsókn í málinu og þar hafi forseti Alþingis hvergi komi að. Á skrifstofustjóranum hvíli sjálfstæð skylda til að standa vörð um öryggi starfsmanna Alþingis sem og alþingismanna.

Óþolandi að Samfylkingin taki þátt í leiknum

Mörður er ósáttur við svör Ástu Ragnheiðar og fjallar um málið í pistli Eyjunni. „Strax og forseti alþingis heyrði af þessari beiðni - hafi hún ekki beinlínis verið borin undir hann - átti forsetinn að láta saksóknara vita um eigin afstöðu til málsins. Úr því það var ekki gert er eðlilegt að svo sé litið á að forseti alþingis sé sammála skrifstofustjóranum og saksóknaranum - og beri beina pólitíska ábyrgð á því að málaferlunum getur lokið með löngum fangelsisdómum yfir nímenningunum vegna árásar á alþingi. Í fyrsta sinn síðan 1949."

Varaþingmaðurinn segir að það sé óþolandi að Samfylkingin taki þátt í þessum leik. „Og þyngra en tárum taki fyrir okkur félaga og samstarfsmenn Ástu Ragnheiðar að sjá hana gengna í þessi björg," segir Mörður í pistlinum sem hægt er að lesa hér.


Tengdar fréttir

Vilja leiga rými fyrir þinghaldið

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa ritað Héraðsdómi Reykjavíkur opið bréf og óskað eftir því mál níu mótmælenda sem sóttir eru til saka fyrir að fara inn í Alþinghúsið í Búsáhaldabyltingunni í byrjun síðasta árs verði tekið fyrir í stærra rými. Þeir bjóðast til að leigja stærra rými fyrir réttarhöldin.

Lögreglan fjarlægði fólk úr dómssal með valdi

Til átaka kom í dómssal í Héraðsdómi Reykjavíkur upp úr klukkan ellefu í morgun þegar lögregla fjarlægði tvo einstaklinga sem voru að fylgjast með fyrirtöku i máli níu mótmælenda sem sóttir eru til saka fyrir að fara inn í alþinghúsið í Búsáhaldabyltingunni í byrjun síðasta árs.

Hef á tilfinningunni að ég verði sakfelld

Mál níu mótmælenda sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi í desember 2008 verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir eiga yfir höfði sér að minnsta kosti eins árs fangelsi verði þeir fundnir sekir.

„Mótmælendur skirrðust ekki við að beita líkamlegu valdi“

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, svaraði fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, á Alþingi í dag um aðkomu Alþingis að málarekstri gegn nímenningum sem hafa verið ákærðir fyrir að ryðjast inn á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×