Enski boltinn

Alex Ferguson hefur stýrt United lengst allra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri United.
Alex Ferguson, stjóri United. Nordic Photos / Getty Images

Sir Alex Ferguson varð í dag sá knattspyrnustjóri sem hefur stýrt liði Manchester United lengst er hann tók fram úr Sir Matt Busby.

Ferguson hefur stýrt United í 24 ár, einn mánuð og þrettán daga en liðið átti að mæta Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leiknum var þó frestað vegna veðurs.

Undir stjórn Ferguson hefur United unnið ensku úrvalsdeildina ellefu sinnum en ef liðið vinnur titilinn aftur í vor verður Manchester United sigursælasta lið í sögu enskrar knattspyrnu með nítján meistaratitla.

Ferguson er 68 ára gamall og er af mörgum talinn einn allra færasti knattspyrnustjóri sögunnar. Starfsaðferðir hans þykja umdeildar en árangurinn talar sínu máli.

„Ég tel að Sir Matt Busby verði hér að eilífu," sagði Ferguson við enska fjölmiðla af þessu tilefni. „Tíma hans hjá félaginu verður aldrei gleymt."

„Hann byrjaði þegar að síðari heimsstyrjöldinni lauk og stýrði liðinu fram yfir Evrópumeistaratitilinn 1968. Hann þurfti að byggja upp nýtt lið eftir flugslysið í München árið 1958. Hans tími hjá félaginu virðist hafa verið mun lengri en hjá mér," sagði Ferguson en Busby lést árið 1994.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×