Enski boltinn

Ferguson: Erfitt hjá Rooney

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney í leik með Manchester United.
Wayne Rooney í leik með Manchester United. Nordic Photos / AFP

Alex Ferguson segir að Wayne Rooney eigi erfitt uppdráttar þessa dagana í ljósi þeirrar umfjöllunar sem verið hefur um einkalíf hans í bresku pressunni síðustu vikurnar.

Rooney mun hafa sængað hjá vændiskonum á sama tíma og eiginkona hans var ófrísk. Hann hefur skorað eitt mark á tímabilinu og var ekki með liði United þegar það mætti Everton á útivelli fyrr í mánuðinum.

„Ég held að hann eigi ekki í vandræðum með sjálfstraustið en drengurinn er loksins farinn að gera sér grein fyrir hvers konar athygli hann nýtur sem manneskja," sagði Ferguson í viðtali við Gazzetta dello Sport.

„Hann gerir sér nú grein fyrir hvað það þýðir að vera miðpunktur athygli fjölmiðla í málefnum sem ekki tengjast fótboltanum."

„Ég held að hann geti ekki hreyft sig án þess að það sé myndavél á honum. Ljósmyndarar fylgja honum í hvert fótmál og það er ekki eftirsóknarvert fyrir unga persónu. Hann vill spila og njóta fótboltans án allrar athyglinnar því hún getur verið mjög þreytandi."

„Hann vill halda áfram að spila fótbolta en umsátur götublaðanna getur verið slítandi fyrir hvern sem er."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×