Enski boltinn

Roy Hodgson neitaði að selja menn sem stjórnin vildi losna við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Mynd/AP
M, stjóri Liverpool, fékk síðasta sumar lista frá Christian Purslow, fyrrum yfirmanni knattspyrnumála hjá félaginu en á listanum voru leikmenn sem stjórnin vildi selja frá félaginu. Hodgson hefur nú komið fram og þakkað gott gengi liðsins að undanförnu því þar hafi leikmenn af umræddum lista spilað mikilvægt hlutverk í velgengi liðsins síðustu vikur.

Meðal leikmanna á listanum voru menn eins og Lucas Leiva, Sotirios Kyrgiakos, David Ngog og Ryan Babel. Sá síðastnefndi hefur leikið mjög vel í síðustu tveimur leikjum og hinir hafa spilað stórt hlutverk á öllu tímabilinu.

„Ég fékk lista frá Christian sem var búinn að vera hjá félaginu í eitt ár og hafði mjög sterkar skoðanir á mörgum leikmönnum. Ég hlustaði á hann en tók það skýrt fram að ég myndi ekki selja þessa menn. Hann hefur síðan hrósað mér fyrir að hlusta ekki á sig," sagði Hodgson.

„Okkur vantar að styrkja leikmannahópinn á ákveðnum stöðum því ef við missum ákveðna menn í meiðsli þá erum við í miklum vandræðum. Við þurfum meiri breidd enda ekki með nærri því eins mikla breidd og lið eins og Tottenham, Chelsea eða Arsenal," sagði Hodgson.

„Ég ætla ekki að segja nei við því ef eigendurnir vilja kaupa góða leikmenn til félagsins en ég tel það jafnframt ekkert vera það slæmt ef við fáum meiri tíma til þess að prófa þennann leikmannahóp sem við erum með," sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×