Innlent

Björn Valur: Þjóðin þarf ekki Friðrik Sophusson

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, er ósáttur við skipan Friðriks Sophussonar, sem stjórnarformanns Íslandsbanka. Hann vill að stjórnendur bankans endurskoði ákvörðun sína. „Þetta er ekki það sem íslenska þjóðin þarf á að halda núna," segir Björn Valur.

Friðrik var fyrr í dag kjörinn stjórnarformaður Íslandsbanka. Fjórir af sjö stjórnarmönnum bankans eru útlendingar. Friðrik er fyrrverandi forstjóri Landsvirkjunar. Hann var áður fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Þjóðin þarf ekki á því að halda að verið sé að raða fyrrverandi stjórnmálaleiðtogum inn í bankana. Ég tala nú ekki um þegar tilkynnt er um að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis dregst á langinn vegna yfirgripsmikillar vinnu. Þetta er ekki í þeim anda sem þjóðin ætlaði að reisa sig við," segir Björn Valur í samtali við fréttastofu.

Hann vill að stjórnendur Íslandsbanka endurskoði ákvörðun sína og setji þess í stað inn einhvern sem nýtur trausts og trúnaðar í þjóðfélaginu.

„Í þessu tilfelli er verið að setja inn varaformann Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra. Mann sem hefur verið áberandi í stjórnmálaumræðunni í áratugi og ötull flokksmaður þess stjórnmálaflokks sem mesta ábyrgð ber á hruninu," segir Björn Valur.


Tengdar fréttir

Friðrik Sophusson stjórnarformaður Íslandsbanka

Friðrik Sophusson hefur verið skipaður formaður stjórnar Íslandsbanka en það var tilkynnt fyrir stundu. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, verður einnig í stjórn bankans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×