Enski boltinn

Houllier: Heskey getur verið jafn góður og Drogba

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emile Heskey í leik með Aston Villa.
Emile Heskey í leik með Aston Villa. Nordic Photos / Getty Images
Gerard Houllier, stjóri Aston Villa, segir að Emile Heskey geti vel orðið jafn góður og Didier Drogba, leikmaður Chelsea.

Drogba er almenn talinn einn besti framherji heims en Emile Heskey hefur mátt þola gagnrýni allan sinn feril.

Houllier hefur greinilega mikla trú á Heskey. Hann keypti hann til Liverpool á sínum tíma og hefur gefið honum sæti í byrjunarliði Aston Villa síðan hann tók við liðinu í haust.

Heskey hefur endurgoldið traustið og staðið sig vel í síðustu leikjum sínu með Aston Villa.

„Drogba er framherji sem er duglegur og leggur mikið á sig. Við eigum hins vegar framherja sem getur gert slíkt hið sama - í alvöru," sagði Houllier.

„Emile er sterkur, snöggur og kraftmikill. Þetta snýst í raun aðeins um að hafa trú á sjálfum sér."

„Drogba er líklega besti framherji heims. Hann getur búið til sín eigin mörk, tekið á móti fyrirgjöfum, skallað, tekið aukaspyrnur og hann leggur mikið á sig fyrir liðið."

„Emile býr yfir einhverjum kostum sem hann notar einfaldlega ekki. Hann gerir stundum hluti á æfingum sem eru hreint ótrúlegir. En það er eins og að Emile gleymi stundum hversu góður hann getur orðið."

„Það er lítil þolinmæði gagnvart sóknarmönnum í Englandi. Ef þeir klúðra nokkrum færum getur það farið afar illa með sjálfstraustið þeirra. Það er væntanlega það sem kom fyrir Emile."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×