Enski boltinn

Hermann búinn að samþykkja nýjan samning við Portsmouth

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. Mynd/Arnþór

Hermann Hreiðarsson hefur samþykkt nýjan samning við enska B-deildarfélagið Portsmouth og mun skrifa undir hann á miðvikudaginn næstkomandi.

Þetta kom fram í enskum fjölmiðlum í dag. Hermann er staddur hér á landi með íslenska landsliðinu sem mætir Portúgal á þriðjudaginn. Hann sleit hásin í mars síðastliðnum og hefur verið frá síðan þá.

Hann er hins vegar aftur orðinn heill af meiðslum sínum þó svo að hann hafi ekki enn spilað á nýjan leik.

„Samningurinn hefur verið samþykktur og tók gildi á miðvikudaginn," sagði Steve Correrill, stjóri Portsmouth, í samtali við Portsmouth News. „Við vonum að hann komi aftur og verði aftur sá leikmaður sem hann var áður en hann meiddist."

„Það efast ég ekki um og hann verður góð viðbót við okkar lið," bætti Cotterill við.

Correrill sagði einnig að Hermann myndi spila æfingaleik með íslenska landsliðinu í dag. „Ég mun heyra í landsliðsþjálfaranum eftir leikinn og þá verður framhaldið ákveðið," sagði Cotterill.

Hann sagði að það kæmi til greina að Hermann kæmi aftur til Englands um helgina og myndi þá spila með varaliði Portsmouth á mánudagskvöldið. Leikur Íslands og Portúgals verður á þriðjudagskvöldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×