Enski boltinn

Lindegaard mætir ekki á Old Trafford til að sitja á bekknum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Anders Lindegaard.
Anders Lindegaard.

Danski markvörðurinn Anders Lindegaard verður orðinn leikmaður Manchester United í janúar. Hann segist ekki vera á leið á Old Trafford til að verma varamannabekkinn.

Lindegaard kemur frá Álasundi og hefur æfingar með Rauðu djöflunum í desember og verður svo orðinn löglegur með liðinu þegar félagaskiptaglugginn opnar um áramótin.

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, reiknar með því að núverandi aðalmarkvörður, Edwin van der Sar, leggi hanskana á hilluna eftir yfirstandandi tímabil og er talið að hann fái annan markvörð til félagsins.

United hefur verið orðað við markverði eins og Maarten Stekelenburg, Manuel Neuer og David De Gea. En hver sem samkeppnin verður segist Lindegaard tilbúinn í baráttuna og ætlar sér að vera aðalmarkvörður félagsins.

„Ég er ekki að ferðast til Manchester til að vera varamarkvörður og mér finnst ég vera fenginn hingað til að berjast um byrjunarliðssæti. Það er augljóst að þetta er draumur að rætast. Ég hef haldið með Manchester United síðan ég var lítill drengur og faðir minn er harður stuðningsmaður," sagði Lindegaard við VG.

„Þetta hefur verið langt ferli og mér finnst eins og þeir hjá Manchester United viti meira um mig sem leikmann en ég geri sjálfur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×