Enski boltinn

Sullivan gat ekki sofið eftir tapið gegn Úlfunum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gianfranco Zola.
Gianfranco Zola.

David Sullivan, annar af eigendum West Ham, segir stjórn félagsins standa alfarið við bak knattspyrnustjórans Gianfranco Zola. West Ham er aðeins stigi frá fallsæti.

„Við stöndum 100% með stjóranum, það verða engar breytingar," sagði Sullivan. Hamrarnir töpuðu illa fyrir Úlfunum fyrr í vikunni í fallbaráttuslag.

„Við ræddum við Zola eftir leikinn til að fá hans hlið. Við vorum allir sammála um að þessi frammistaða væri ekki boðleg og mætti ekki endurtaka sig. Ég er viss um að liðið muni spila miklu betur gegn Stoke um helgina."

Starf Zola er talið öruggt út þetta tímabil en Sullivan vildi ekkert tjá sig um hvort stjóraskipti myndu eiga sér stað eftir það.

Sullivan skrifaði opið bréf til stuðningsmanna West Ham sem birt er á heimasíðu félagsins. Hér má sjá brot úr því bréfi:

„Ég skrifa þetta á miðvikudagsmorgni. Ég gat ekkert sofið nýliðna nótt eftir að hafa horft á slaka frammistöðu liðsins gegn Wolves. Ég var eins reiður og aðrir stuðningsmenn með það hvernig við lékum, við létum Úlfana líta út eins og Manchester United."

Í bréfinu talar Sullivan einnig um að West Ham sé skipað hæfileikaríkum einstaklingum en leiki ekki saman sem lið. Hann biður stuðningsmenn um að sýna liðinu stuðning á þessum erfiðu tímum því það hjálpi til við a bjarga því frá falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×