Enski boltinn

Ferguson kallar eftir drápseðlinu i sínu liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United segir að sínir menn þurfi að fara að klára leiki ætli þeir sér að eiga möguleika í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Chelsea er nú með fimm stiga forskot á United og er komið vel á stað með að verja titilinn sem liðið vann síðasta vor.

Ferguson talar sérstaklega um leiki Manchester United á útivelli á móti Fulham og Everton þar sem United-liðið var í góðri stöðu til að vinna en missti báða leiki niður í jafntefli.

„Þetta lið í dag klárar ekki leiki sína eins vel og það ætti að gera," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, í viðtali við Inside United.

„Á Goodison fengum við þrjú eða fjögur tækifæri í stöðunni 3-1 til þess að gera út um leikinn en nýttum þau illa og það kom í bakið á okkur í lokin. Það er samt óhugsandi að missa niður tveggja marka forustu í uppbótartíma," sagði Ferguson.

„Drápseðlið vantar í liðið eins og er og við þurfum að gera bragabót á því. Það er ekki vandamálið að skora mörk, við skoruðum þrjú á móti Liverpool, Everton og West Ham og skoruðu tvö á móti Fulham á útivelli og þrjú í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Það sýnir að við getum skorað mörk. Það sem er fyrst og fremst að er að við erum ekki að ganga frá okkar leikjum," sagði Ferguson.

„Maður hefði búist við því að Chelsea myndi klára þessa leiki sem þeir eru búnir að spila. Á sama tíma höfum við farið á erfiða útivelli á móti Fulham og Everton auk þess að spila við Liverpool. Þetta eru allt erfiðir leikir. Liverpool, Arsenal og við höfum öll mætt sterkum liðum í upphafi tímabils en Chelsea á eftir að lenda í sínum erfiðu prófum," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×