Enski boltinn

Wenger segir frestanir óþarfar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur gagnrýnt þá ákvörðun að fresta sex leikjum í ensku úrvalsdeildinni um helgina og segir að það sé alger óþarfi.

Mikið kuldakast er í Bretlandi um helgina og mikil snjókoma. En öllum félögum í ensku úrvalsdeildinni er skylt að vera með upphitunarkerfi undir völlunum sínum og því er vel hægt að spila á þeim þrátt fyrir veðurfarið.

Ástæðan fyrir frestununum er sú að lögregluyfirvöld telja að stuðningsmönnum sé ekki óhætt að ferðast á völlinn, hvorki á bíl né fótgangandi.

„Ég þekki aðeins aðstæður á vellinum sjálfum en þekki ekki næsta umhverfi nægilega vel. En ég verð þó að segja að þetta þurfum við að sætta okkur við fyrir að vilja búa í 100 prósent öruggu umhverfi. Það er enginn sem vill taka áhættu lengur og óttinn stjórnar okkur í einu og öllu."

„Ef einn af sextíu þúsund manns yrði fyrir slysi myndi maður fá samviskubit vegna þess. Það er enginn sem vill búa við minnsta óöryggi og þess vegna er verið að fresta leikjunum þegar það er í raun og veru engin þörf á því."

Eftirfarandi leikjum í ensku úrvalsdeildinni hefur verið frestað:

Laugardagur:

Hull - Chelsea

Fulham - Portsmouth

Sunderland - Bolton

Burnley - Stoke

Wigan - Aston Villa

Sunnudagur:

Liverpool - Tottenham

Þessir leikir eru enn á dagskrá:

Laugardagur:

15.00 Arsenal - Everton

17.30 Birmingham - Manchester United

Sunnudagur:

13.30 West Ham - Wolves








Fleiri fréttir

Sjá meira


×