Erlent

Nóg af eldsneyti á flugvöllunum

Dominique Bussereau, samgönguráðherra Frakklands.
Dominique Bussereau, samgönguráðherra Frakklands. Mynd/AFP
Dominique Bussereau, samgönguráðherra Frakklands, segir að verkfall starfsmanna 12 olíuhreinsunarstöðva og annarra starfstétta í landinu muni ekki hafa áhrif flugsamgöngur. Áhrif aðgerðanna gætti strax í fyrradag þegar flæði á eldsneyti til flugvalla í París minnkaði til muna. Talið var að Orly flugvöllur fengi eldsneyti út vikuna en að eldsneyti gæti gengið til þurrðar á Charles de Gaulle og Roissy flugvelli undir loka helgarinnar. Komið var í veg fyrir það.

Eldsneyti hefur hins vegar ekki verið dreift á bensínstöðvar. Bussereau segir hundruð bensínstöðva verða brátt eldsneytislausar.

Hundruð þúsunda Frakka mótmæltu í gær úti á götum landsins þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Nicolasar Sarkozy, Frakklandsforseta, um að hækka lágmarks eftirlaunaaldur í landinu úr 60 árum í 62 ár.

Gríðarlegur halli er á eftirlaunasjóðum Frakka, eða um 5000 milljarðar íslenskra króna og stefnir hallinn í 8000 milljarða árið 2020 verði ekkert að gert. Það er svipuð upphæð og talið er að erlendir kröfuhafar hafi tapað á íslenska efnahagshruninu. Stjórnvöld segja nauðsynlegt að hækka eftirlaunaaldurinn þar sem Frakkar lifi lengur en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×